Menntamálastofnun hefur búið til nýjan grunn og hann er að ýmsu leyti ennþá á vinnslustigi. Unnið er að þróun og lagfæringum á grunninum. Allar athugasemdir og hugmyndir um birtingu gagna má senda á prof hja mms.is

Hlutverk skýrslugrunnsins er að vera opinber birting tölulegra gagna í samræmi við reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla (173/2017). Í 10. grein reglugerðarinnar segir að Menntamálastofnun skuli „gefa út yfirlit um heildarniðurstöður prófanna á rafrænu formi og gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir grunnskóla, menntayfirvöld, sveitarfélög og ríki og birta þær opinberlega“. 

Skýrslugrunnurinn var settur upp til að taka við af skýrslum sem áður voru birtar um könnunarprófin. Grunnurinn á að auðvelda vinnslu á niðurstöðum og vera aukin aðstoð við aðila skólasamfélagsins og aðra til að vinna hverskonar gögn. Grunnurinn gefur kost á að skoða niðurstöður á myndrænu formi og í töflu.

Í skýrslugrunninum má finna margvíslegar niðurstöður tengdar samræmdum könnunarprófum. Byggjast niðurstöðurnar annars vegar á tölulegum upplýsingum tengdum frammistöðu nemenda og hins vegar á framkvæmd könnunarprófanna.

Niðurstöður um frammistöðu nemenda sýna einkum stöðu ákveðinna hópa á tilteknum tíma, hlutföll nemenda sem fá hverja hæfnieinkunn og upplýsingar er tengjast framvindu nemenda í námi og dreifingu nemenda innan skóla eða svæðis. Um er að ræða meðaltalsniðurstöður og niðurstöður eftir námsþáttum í íslensku og stærðfræði fyrir yngsta stig, miðstig og unglingastig. Þá eru niðurstöður vegna ensku á unglingastigi. Niðurstöðurnar má skoða eftir skólum, sveitarfélögum, kjördæmum, landshlutum eða eftir landssvæðum. Nánari fróðleik um niðurstöður tengdar frammistöðu má finna undir flipanum „Um einkunnir“.

Niðurstöður tengdar framkvæmd sýna fjölda og hlutfall nemenda sem þreytir prófin, eru með undanþágu eða fjarvist og fjölda og hlutfall nemenda sem nýtir stuðningsúrræði við próftöku. Þessar niðurstöður má skoða eftir bekkjum, skólum, sveitarfélögum, kjördæmum, landshlutum eða eftir landssvæðum (höfuðborgarsvæðið vs landsbyggð).

Mikilvægt er að hafa fyrirvara á túlkun niðurstaðna því stærð skóla, þátttökuhlutfall, félagslegur bakgrunnur, námsforsendur, sértækir erfileikar nemenda við að þreyta próf og fleiri þættir geta haft áhrif á niðurstöður. Samræmd könnunarpróf eru frábrugðin öðru námsmati í grunnskólum að því leyti að allir nemendur á landinu þreyta sama prófið og niðurstöður gefa því annað sjónarhorn á stöðu nemenda. 

Um könnunarpróf

Samkvæmt 39. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 skal mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum með því að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Í lögunum segir að leggja eigi fram samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla en nemendur í 9. bekk skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Nánari útfærslu á samræmdum könnunarprófum er hægt að sjá í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017.  

Í 3. gr. reglugerðar nr. 173/2017 segir að tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum sé að:

  • athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
  • vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda,
  • veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
  • veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim námsgreinum og námsþáttum sem prófað er úr.

Almennt má segja að meginþorri þess námsmats sem fram fer í grunnskólum sé í höndum kennara í hverjum bekk eða skóla fyrir sig. Námsmatið er breytilegt frá einum skóla til annars, oft er það breytilegt milli kennara innan skóla, frá einu ári til annars og að auki er umgjörð þess, umfang, fyrirgjöf og framkvæmd mjög breytileg. Líta má á þetta sem innra námsmat skóla. Kostirnir við innra námsmat eru sveigjanleiki, til dæmis er unnt er að sníða það eftir þörfum, nemendahóp, áherslum og efnistökum hverju sinni og fleiri þáttum. Ókostirnir eru að niðurstöður matsins eru ekki sambærilegar hjá nemendum í ólíkum skólum eða milli námsgreina. Í aðalnámskrá er lögð áhersla á að námsmat sé fjölbreytt og endurgjöf til nemenda byggist á mismunandi aðferðum, til dæmis munnleg verkefni, verkleg, skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, verkefnamöppur, rafræn verkefni, próf og fleira.     

Samræmd könnunarpróf gegna hlutverki ytra námsmats en megintilgangur þess er að fá fram niðurstöður um stöðu nemenda sem eru sambærilegar milli skóla og yfir tíma. Meginforsendur fyrir námsmati eru að inntak prófanna byggist á aðalnámskrá grunnskóla í hverri námsgrein, allir nemendur þreyta sambærileg könnunarpróf með nákvæmlega sama inntaki, við sambærilegar aðstæður og að prófin eru sambærileg milli ára. Styrkur könnunarprófanna meta hæfni nemenda með sama hætti og við sambærilegar aðstæður sem gerir þeim kleift að draga fram ákveðið sjónarhorn á stöðu nemenda sem innra mat skóla getur ekki veitt og eru því mikilvæg viðbót við fjölbreytileika námsmats í grunnskólum.  

Samræmdum könnunarprófum er ætlað að vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda og veita menntayfirvöldum upplýsingar. Í 3. gr. reglugerðarinnar segir að „niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skólastarfi.“ Mikilvægt er að nota þær niðurstöður sem koma út úr könnunarprófunum til að meta eins og kostur er hvernig hæfniviðmiðum námsþáttar hefur verið náð, vera leiðbeinandi um áherslur í námi nemenda, veita upplýsingar um námsárangur og námsstöðu einstakra nemenda og til að veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar standa í þeim námsþáttum sem prófað er úr (sjá nánar 3. grein). Mikilvægt er að hafa þennan tilgang könnunarprófanna og nýtingu þeirra í huga þegar unnið er með gögnin í þessum gagnagrunni. 

Gerð og framkvæmd

Menntamálastofnun sér um framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 9. bekk samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Prófað er í þremur námsgreinum, íslensku, ensku og stærðfræði, í 9. bekk og tveimur námsgreinum, íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk. Könnunarprófin eru lögð fyrir nemendur í 4. og 7. bekk að hausti en 9. bekk að vori. 

Framkvæmd könnunarprófanna byggist á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla (173/2017/). Þar segir:  „ráðherra leggur grunnskólum til samræmd könnunarpróf sem haldin eru samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Grunnskólum er skylt að leggja prófin fyrir nemendur í 4., 7. og 9. bekk og fylgja fyrirmælum þessarar reglugerðar um framkvæmd þeirra“ (4. gr.).

Að búa til samræmt könnunarpróf krefst mikillar vinnu, tíma og undirbúnings. Undirbúningur prófanna hefst allt að tveimur árum áður en þau eru lögð fyrir, með gerð eða endurskoðun prófáætlunar. Prófáætlunin tryggir að könnunarprófin endurspegli hverja námsgrein eins og hún er sett upp í aðalnámskrá. Sum atriðanna, sem tilgreind eru í aðalnámsskrá falla utan þess sem samræmd próf ná til, en hafa ber í huga að könnunarprófin eru aðeins einn hluti þess námsmats sem fram fer í grunnskólunum. Meginþorri námsmatsins er í höndum kennara og skólanna sjálfra. 

Samning prófverkefna og gæðaferli tekur við af gerð og endurskoðun prófáætlunar, þar sem prófverkefni eru endurbætt og gagnrýnd.  Prófverkefni eru samin af sérfræðingum sem eru menntaðir kennarar og hafa reynslu af kennslu í 4., 7. og 9. bekk. Öll verkefnin eru forprófuð með aðstoð nemenda í grunnskólum. Verkefnin eru einnig rýnd af sérfræðingum utan stofnunarinnar. Könnunarprófin eru rafræn en sú breyting að færa þau úr pappírsformi yfir í rafrænt form hófst með fyrirlögn í 4. og 7. bekk haustið 2016.

Samræmd könnunarpróf eru haldin í öllum grunnskólum landsins, hafi þeir nemendur í 4., 7. og/eða 9. bekk. Allir nemendur úr þessum bekkjum þreyta prófin nema þeir sem skráðir eru með undanþágu af einhverjum ástæðum. Menntamálastofnun og skólastjórnendur nota sameiginlegt rafrænt kerfi sem kallast Skólagátt, það heldur utan um framkvæmd, fyrirlögn, niðurstöður prófanna (mælaborð og einkunnablöð nemenda) ásamt sýnisprófum. Nemendur eru skráðir af skólastjórum eða kennurum í árganga og bekki (hópa) í Skólagátt. Skólastjórar geta sótt um stuðningsúrræði, þ.e. lengdan próftíma og upplestur fyrir þá nemendur sem það þurfa og er það gert í Skólagáttinni. Búferlaflutningar, veikindi og aðrir þættir geta haft áhrif á endanlega skráningu og mætingu í prófin. Nemendur sem ekki eru skráðir í skóla eru ekki hafðir með í þeim tölum sem birtast í skýrslugrunninum. Hlutfall nemenda sem tekur samræmd könnunarpróf hefur að jafnaði verið hátt. Alltaf eru einhverjir sem aðeins þreyta eitt próf og er það í flestum tilfellum vegna þess að undanþága er í öðrum prófum. Eins og sjá má þegar töflur í tölfræðihluta þessa skýrslugrunns eru skoðaðar þá geta einnig verið aðrar ástæður eins og veikindi eða fjarvistir (nemendur eru skráðir fjarverandi ef ekki er sérstaklega tilgreind ástæða fjarverunnar). Undanfarin ár hefur hlutfall þeirra sem eru undanþegnir, veikir eða fjarverandi frá prófi verið mjög svipað.

Nánari upplýsingar um gerð og framkvæmd prófanna ásamt leiðbeiningum má nálgast á heimasíðu Menntamálastofnunar: https://mms.is/samraemd-konnunarprof

Einkunnir á samræmdum könnunarprófum

Í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa segir að birta skuli niðurstöður úr þeim opinberlega og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara og annarra aðila samfélagsins. Við framsetningu niðurstaðna úr könnunarprófunum þarf að velja hvaða mælikvarða á að nota og nota mælikvarða sem henta tilgangnum. Slíkir mælikvarðar geta virkað flóknir en þeir eru mikilvægir til að setja fram skýra mynd af niðurstöðum nemenda, skóla og sveitarfélaga. 

Almennt eru notaðar fimm tegundir ef einkunnum til að birta niðurstöður samræmdra könnunarprófa: hæfnieinkunn, samræmd grunnskólaeinkunn, samræmd einkunn, raðeinkunn og framfaratölur. Í skýrslugrunninum eru birtar niðurstöður er byggja á hæfnieinkunn, samræmdri grunnskólaeinkunn og framfaratölum. Á einkunnablöðum til nemenda birtast hins vegar hæfnieinkunnir eða samræmdar einkunnir og raðeinkunn. Hér fyrir neðan má sjá nánari útskýringu á hverri tegund einkunna: 

Hæfnieinkunnir endurspegla að hvaða marki nemendur hafa náð matsviðmiðum aðalnámskrár. Nemandi sem nær tiltekinni hæfnieinkunn hefur almennt á valdi sínu  kunnáttu, leikni og færni sem lýst er á viðkomandi þrepi matsviðmiða en takmarkað vald á meira krefjandi hæfniþrepi. Hæfnieinkunnir eru gefnar í bókstöfum: A, B+, B, C+, C og D. Þetta er góð aðferð til að veita nemanda endurgjöf og túlkar stöðu nemandans. 

Samræmd grunnskólaeinkunn er normaldreifð einkunn á kvarðanum 1 – 60 með meðaltalið 30 og staðalfrávik 10. Hún sýnir stöðu nemanda á könnunarprófi óháð þyngd þess eða öðrum sérkennum. Landsmeðaltal er ávallt sett sem 30 en meðaltal skóla eða svæða sýna stöðu þeirra í samanburði við landsmeðaltalið. Þetta er ákveðin hópeinkunn með tiltekna tölfræðilega eiginleika sem nýtist vel við úrvinnslu. 

Framfaratölur endurspegla breytingar á stöðu nemenda innan síns árgangs á milli tveggja samræmdra prófa.  Hlutverk þessara niðurstaðna er að sýna breytingu á stöðu nemenda innan árgangs frá einu prófi til annars. Til dæmis að meta breytingu hjá nemendum milli yngsta stigs og unglingastigs. 

Raðeinkunnir endurspegla stöðu nemenda innan árgangs. Þær eru einfaldar í túlkun og eru náskyldar prósentum. Raðeinkunnir eru gefnar á bilinu 1 – 99. Sem dæmi um túlkun má nefna að nemandi sem fær 60 í raðeinkunn í íslensku – stendur sig jafn vel eða betur en 60% nemenda. Þetta er einkunn sem birtist einungsis á einkunaspjaldi nemenda, enda verið að fjalla um niðurstöður nemanda og aðferð til túlka þær.  

Samræmd einkunn er einkunn á kvarðanum 1 – 10 sem endurspeglar hlutfall prófatriða sem nemendur leysa rétt á prófi.  Dreifing þeirra er háð þyngd atriða á hverju prófi fyrir sig og þær eru því ekki sambærilegar á milli námsgreina eða fyrir sama próf milli ára. Þetta er einkunn sem birtist einungis á einkunaspjaldi nemenda. 

 

Almennt um einkunnir – smá fróðleikur um flókin heim námsmats

Einkunnir hafa almennt tvenns konar ólíka eiginleika og nýtast með ólíkum hætti, ýmist til að fjalla um niðurstöður einstaklinga eða hópa. Einkunnir geta annars vegar verið staðalbundnar og hins vegar viðmiðsbundnar.

  1. Staðalbundnar einkunnir endurspegla stöðu nemenda innan ákveðinnar dreifingar. Raðeinkunnir, samræmd grunnskólaeinkunn og framfaratölur tilheyra þessum flokki einkunna. Þær nýta sér eiginleika ákveðinna fræðilegra dreifinga sem ramma til að auðvelda túlkun niðurstaðna. Í megindráttum byggja staðalbundnar einkunnir á stöðu nemanda með tilliti til árgangsins og niðurstöður því afstæðar. Samræmd grunnskólaeinkunn og framfaratölur notast við normaldreifingu en raðeinkunn við einsleita dreifingu sem einnig er þekkt sem kassadreifing. Ávinningurinn af þessu er að sama einkunn hefur sömu merkingu milli ólíkra námsgreina, aldursstiga og ára. Til að mynda er raðeinkunn sambærileg milli íslensku og stærðfræði, milli 4. bekkjar og unglingastigs og frá einu ári til annars. 
  1. Viðmiðsbundnar einkunnir byggjast á skilgreiningum eða lýsingum á færni sem nemandinn hefur á valdi sínu, hvað hann kann og getur. Hæfnieinkunn hefur eiginleika slíkra einkunna. Hún byggist á skilgreiningum á kunnáttu, leikni og færni sem fjallað er um í kafla 9.4 í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011. Viðmiðsbundnar einkunnir eins og hæfnieinkunnir gefa annars konar sýn á stöðu nemenda og endurspegla að hvaða marki nemandi hefur náð valdi á ákveðinni færni eða hæfni. Slíkar einkunnir nota alla jafna mun færri þrep eða einkunnapunkta en staðalbundnar einkunnir. Algengast er að notaðir séu tveir til fjórir flokkar eða einkunnir á slíkum kvörðum. Byrjað var að nota hæfnieinkunnir með niðurstöðum samræmdra könnunarprófa á unglingastigi frá haustinu 2014 en gert er ráð fyrir að þær verði teknar upp í 4. og 7. bekk þegar matsviðmið bætast við aðalnámskrá. 

Notkun á niðurstöðum 

Í 3. grein reglugerðar um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa (nr. 173/2017) segir: „Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skóla­starfi.“

Mikilvægt er að nota þær niðurstöður sem koma út úr könnunarprófunum til að meta hvernig hæfniviðmiðum námsþáttar hefur verið náð, vera leiðbeinandi um áherslur í námi nemenda, veita upplýsingar um námsárangur og námsstöðu einstakra nemenda og til að veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar standa í þeim námsþáttum sem prófað er úr. Ítrekað er að könnunarprófin athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð (sjá nánar 3. gr. rg. nr. 173/2017). Könnunarprófin eru yfirgripsmikil próf sem byggja á viðmiðum sem Aðalnámskrá skilgreinir fyrir þriggja ára tímabil. Þau gefa því almennar niðurstöður um megin námsþætti sem prófað er úr, en ekki upplýsingar um einstök hæfnimarkmið. Aðferðir sem staðlað mat byggir á fellur illa aða sumum markmiðum aðalnámskrár. Samræmd könnunarpróf ná þannig ekki að meta öll markmið aðalnámskrár og mikilvægt að horfa einnig til námsmats skóla við mat á ýmsum þáttum aðalnámskrár. Mikilvægt er að hafa þennan tilgang könnunarprófanna og nýtingu þeirra í huga þegar unnið er með gögnin í þessum gagnagrunni. Gögn þessi geta ekki, ein og sér, verið grunnur til að meta starf einstakra skóla, námsárangur eða gæði kennslu, enda þurfa fleiri þættir skólastarfsins að liggja til grundvallar í slíku mati. 

Menntamálastofnun leggur áherslu á að gögnin séu notuð á umbótamiðaðan hátt. 

Menntamálastofnun hvetur til varfærni við túlkun á niðurstöðunum, þar sem ólík stefna skólanna og aðstæður geta haft áhrif á heildarniðurstöður hvers skóla. Þannig gerir stærð skóla, þátttökuhlutfall, félagslegur bakgrunnur nemenda, námsforsendur, sértækir námserfileikar o.fl. beinan samanburð milli skóla erfiðan og jafnvel óæskilegan. Ýmsir slíkir þættir geta haft árhrif á námsárangur og gengi í könnunarprófum, sem gerir samanburð ósanngjarnan og gefur mögulega ekki rétta mynd af árangursríku starfi skólans.

 

Loading...

Sækja gögnin
Loading...
Loading...

Frammistaða eftir svæði

Loading...

Mætingar eftir svæðum